top of page

Flutt til Eyja
og árið sem á eftir kom 

Hér rifjar Hrafnhildur Guðmundsdóttir upp er hún og eiginmaður hennar Ólafur Guðmundsson ásamt 3 börnum fluttu til eyja til að festa þar rætur og það sem á eftir kom 

Flutt til Eyja 1972

Ólafur þ Guðmundsson og Hrafnhildur Guðmundsdóttir mynd tekin í Álsey 1972 rétt fyrir verslunnarmannahelgi er þau skruppu til eyja í húsnæðisleit Fengu þau húsnæði á Brekastíg 15 hjá Palla Árna , fluttu þangað í Nóvember sama ár

Það var í nóvember 1972 að við fluttumst frá Selfossi til Vestmannaeyja. Við hjónin á bezta aldri með þrjú börn eins, þriggja og fimm ára gömul. Fengum leigt í húsi við Brekastíg, á jarðhæð. Ég heimavinnandi og bóndinn rafvirki í mikilli vinnu.

Hægt og rólega gekk að taka upp úr kössum og koma sér fyrir. Það af fötum sem ekki var notað þá um stundir var komið fyrir í geymslu hjá kunningjafólki. Við áttum tvo hesta og tók það nokkurn tíma að fá þá flutta til Eyja, frá Reykjavík. Það varð að vera gott í sjóinn til að það væri hægt. Á þessum tíma árs var og er veðrið rysjótt. Að lokum tókst það og þeir komust í hesthús sem staðsett var við Urðir. Þeir voru svo járnaðir upp úr áramótunum

Koma sér fyrir

Desember var skemmtilegur. Verzlanirnar voru fullar af jólavörum. Eyjamenn sjálfum sér nægir. Það skrapp nánast enginn til Reykjavíkur til að verzla. Allir bátar að koma úr siglingu með jólagjafirnar til sinna nánustu. Allir tóku tollinn sinn. Svo komu áramótin með glaumi og gleði. Þessar þrjár vikur af janúar voru lausar stundir notaðar til að sinna hestunum eða fara með börnin á sleða inn í Herjólfsdal til að renna sér í snjónum þegar gaf.

Þorrablót

Þorrablót var haldið, helgina fyrir gos. Líklega hafa einhver fyrirtæki tekið sig saman eða okkur bara verið boðið. Þar var matur borinn á borð í trogum sem fólk kom með, að heiman. Þetta var hefðbundið með heimatilbúnum skemmtiatriðum og svo var dansað fram á nótt

Sundþjálfari

Eins og áður sagði leigðum við íbúð á jarðhæð. Einn gluggi var á framhliðinni vinstra megin við útidyrnar. Þetta var baðherbergisglugginn. Hann var ca 70 cm á breidd og var í axlarhæð. Sunnudagsmorguninn 21. janúar var ég í sturtu. Ekki svo sem í frásögur færandi. Óli og börnin fóru í hesthúsið að gefa og moka út. Þegar ég var í mestu makindum að sápa á mér hárið var dyrabjöllunni hringt. Maður veit svo sum aldrei hvort erindið er mikilvægt eða ekki svo ég sló utanum mig handklæðinu, opnaði gluggann og bauð góðan daginn. Úti stóð ókunnugur maður og kynnti sig og spurði eftir Hrafnhildi.  Jú, ég svaraði því að hér stæði hún en aðstæður væru þannig að ég kæmist ekki til dyra. Hann sagði að það væri allt í lagi. Hann ætlaði bara að spyrja mig hvort ég væri til í að koma og þjálfa sund hjá sunddeildinni. Það væri verið að endurnýja laugina og svæðið svo þeir myndu ekki byrja alveg á næstunni. Ég sagðist alveg vera til viðræðna um það. Hann þakkaði fyrir sig og kvaddi. Þannig fór það. Ég var lausráðinn þjálfari hjá sunddeildinni í Eyjum í rúman sólarhring.

Lóðakaup
 

Það voru allir bátar í höfn á mánudeginum 22. janúar.
Óli tók frí þennan dag og við áttum erindi við lögfræðing í bænum.  Við lögðum leið okkar til hans og gengum frá kaupum á hornlóð við Grænuhlíð 15. Með fylgdi teikning af húsinu. Við greiddum 25 þúsund krónur fyrir. Í leiðinni samdi Óli við manninn að taka að sér að gera skattskýrsluna sem átti að skila að nokkrum vikum liðnum.

Hér má sjá staðsetningu lóðarinnar sem þau keyptu ásamt teikningum , þarna átti framtíðar heimilið að vera , eins og sést á þessum myndum þá fór lóðin undir hraun . Loft myndin er fengin af korta vef Vestmanneyjabæjar en myndin af lóðinni er úr mynda safni Óskars Elíasar Óskarssonar

Síðasti rúnturinn
 

Eftir að hafa sótt fasteignasalann heim, fannst okkur upplagt að taka hringinn um eyjuna til að horfa á stórkostlegt brimið sem buldi á klettóttri ströndinni, eftir óveður næturinnar. Nálægt þeim stað þar sem landið rifnaði í sundur, níu klukkustundum síðar, sagði ég stundarhátt. Heldurðu Óli að Helgafell sé kulnað ? Ha, sagði hann. Svo hækkaði hann róminn og sagði " Blessuð hættu þessu bulli " Ég lokaði á mér þverrifunni og hugsaði mitt. Mamma hafði nefnilega sagt, þegar ég sagði henni að við ætluðum að flytja til Eyja. " Þú mátt alveg vita það núna, Hadda mín, að ég kem aldrei til með að heimsækja ykkur þangað. Mig dreymdi draum, þegar ég var unglingur.( Hún var sko uppalin efst uppi í Biskupstungum frá 1908- ) þá sá ég mikil umbrot og margt fólk á ferðinni. Ég vildi gjarnan að þið hættuð við þennan flutning.

Já, maður er svo sem ráðþæginn, eða hvað....

Aftur bankað á dyr
 

Eftir skemmtilegan dag, var kvöldmatur snæddur og börnin háttuð. Óli tók saman það sem tilheyrði skattframtalinu. Klukkan var langt gengin í tólf þegar við fórum að sofa. Mér fannst við varla hafa lokað augunum þegar barið var fast á útihurðina. Óli fór til dyra. Ungi maðurinn sagði " Það er farið að gjósa á eyjunni " Um leið benti hann á eldinn. Við teygðum okkur út fyrir vegginn og sjá, þar var sko eldur. Magnús hafði vaknað og kom líka fram. Við sýndum honum hvar eldurinn logaði. Aumingja barninu fimm ára gömlu varð svo mikið um, að hann kúgaðist og hljóp inn á bað við hliðina á forstofunni og ældi. " Mamma, það fór ekkert á gólfið "

Fyrsta sem okkur datt í hug, þegar búið var að loka útidyrahurðinni. HESTARNIR, Þeir hljóta að vera orðnir ærir, lokaðir inni í hesthúsi. Óli klæddi sig og stökk út í bíl og þandi vélfákinn út götuna. Eftir skamma stund kom hann aftur og var dapur. Einhver hafði opnað hesthúsið, leyst alla hestana og opnað gerðið. Hrossin voru horfin út í buskann

Hlustað á útvarpið
 

Skilaboð komu um, að ekki ætti að hreyfa sig að heiman en hlusta á útvarpið. Taka saman það nauðsynlegasta, en sem minnst og vera tilbúin að fara niður á bryggju, þegar boð bærust. Vegna mikils álags á símkerfið var fólk beðið að lágmarka símnotkun. Ég hringdi eitt símtal. Í eldri bróður minn í Hafnarfirði og bað hann að láta mömmu og pabba vita. Óli átti svo margt skyldfólk í Eyjum að fréttin margbarst heim til foreldra hans. Við byrjuðum á að taka saman í poka sængur og kodda. Fatnað og skótau og þau litlu verðmæti sem blankir ungir foreldrar áttu.

Tilkynningin kom og þá var að koma sér út úr húsi. Það var einkennileg tilfinning, að eiga að fara út af heimilinu okkar og vita ekki hvenær eða hvort maður kæmi aftur. Ég var búin að leggja mikla vinnu í, að gera heimilið fallegt. Ég hafði tekið upp úr tveimur síðustu kössunum, eftir flutningana til Eyja, meðan Óli var að sýsla í pappírunum fyrir skattstjóra. Ég gat notað þá aftur, undir sængurfötin. Mér var hugsað til gamla skápsins, útskorna sem mamma hafði lánað okkur þegar við byrjuðum að búa. Ég hafði skilað honum þegar við fluttum, sem betur fer. Ég sá, þegar farangrinum var komið fyrir í skottinu að Óli hafði tekið reiðtygin með sér, úr hesthúsinu. Leiðir allra lágu í sömu átt. Niður á bryggju. Á leiðinni varð mér starsýnt á konu nokkra. Hún var ein á ferð, gangandi. "Óli, sagði ég. Er konan með kjötlæri undir hendinni"

Farið um borð í Dalaröstina
 

Fljótt og vel gekk að komast um borð í bátinn. Óli var beðinn um að skilja bílinn eftir við bryggjuna og skilja lyklana eftir í bílnum. Við fengum klefa með tveimur konum og þeirra börnum. Alls vorum við 10.  Við stóðum uppi á þilfari meðan siglt var út úr höfninni. Eldlínan náði frá sjó og beint upp allan hallann. Ég hugsaði eins og sjálfsagt fleiri.

Horfðu manneskja horfðu. Þú átt aldrei eftir að sjá neitt í líkingu við þetta aftur. Þetta var ægifagurt og jafn hrikalegt. Strax og komið var út úr höfninni byrjaði þung undiraldan að virka á meltingafærin. Ég er hrikalega klígjugjörn. Strax og þau fyrstu fóru að æla, byrjaði ég. Svo fór að þegar Óli fór að hjálpa til. Halda hárinu á mæðrunum tveimur til skiptis frá æludöllunum og stumra yfir börnunum var ég alveg orðin máttlaus af sjóveiki. Óli stóð vaktina og Bryndís steig ölduna frammi á gangi, stálslegin. Magnús og Hugrún lágu fyrir. Ég hafði hvergi pláss til að leggjast svo ég skreiddist upp í matsal og sat þar eins og slytti og lá fram á borðið það sem eftir var ferðarinnar. Já Óli stóð sig eins og hetja, eins og alltaf.

Þegar komið var í höfn í Þorlákshöfn gekk greiðlega að komast frá borði. Flestir fóru í rútu til Reykjavíkur. Tengdapabbi og mágur Óla komu frá Selfossi að sækja okkur. Ljúft var að komast í hús hjá foreldrum hans. Þar hafði tengdamamma staðið í ströngu alla nóttina. Til að þurfa ekki að sitja aðgerðalaus meðan hlustað var á útvarpið, var hafist handa við að baka. Hún kunni til verka, konan sú. Hún var alin upp á útgerðarmannaheimili í Eyjum. Fjórða í röðinni af ellefu systkinum. Mamma og pabbi vöknuðu við símhringingu um fimmleytið um morguninn. Systir hennar, Lovísa hafði vaknað aðeins fyrr og var að velta fyrir sér af hverju það væri svona mikil umferð, svona snemma morguns. Hún átti heima í austurbæ Reykjavíkur. Hún kveikti á útvarpinu til að athuga hvort eitthvað stórkostlegt hefði skeð. Hún hringdi þá í þau. Ekkert hafði heyrzt frá mér. Já, maður tekur oft rangar ákvarðanir.

Þessi mynd er tekin út um brúargluggan á Dalaröstinni þegar þau sigldu út úr höfninni með flótta fólkið Ljósmyndina tók Harpa Kristinsdóttir

Hvað varð af hrossunum ?
 

Þegar menn voru búnir að koma konum sínum og börnum í skjól fóru þeir aftur til Eyja. Farið var að leita að hestunum. Þeir voru ekki of bjartsýnir um að hrossin fyndust. Heyrzt hafði, að hross hefðu hlaupið ær í eldinn. Hve mörg vissu menn ekki. Sem betur fer fundust hrossin okkar í Herjólfsdal. Þau voru handsömuð og hífð um borð í skip og send upp á land. Frændfólk mitt á Bollastöðum í Flóa buðust til að taka hrossin og hafa á fóðrum um veturinn. Það varð til þess að við kynntumst þessu góða fólki.

Nú var Óli búin að koma hrossunum frá. Þá var að fara að huga að húsbúnaðinum. Hraunið var búið að valta yfir hesthúsið. Húsið sem ég fékk að geyma fatakassana var líka farið. Þar voru allir íþróttagallarnir ásamt barnafatnaðinum. Óli var í kappi við tímann og ætlaði að pakka niður eins og maður gerir þegar búslóð er flutt á milli staða. Þá var lamið á útihurðina og síðan opnað. Inn kom maður. " Heyrðu, sagði hann. Það vantar eina búslóð í bátinn sem við erum að ferma."

Flutningur á húsbúnaði
 

Af tvennu illu, samþykkti Óli að búslóðin færi á þessari stundu. Betra, að hann væri viðstaddur en að honum fjarstöddum. Skipshöfnin kom með traktor og kerru og öllu var hrúgað á hana. Pökkuðu sem ópökkuðu.  Hann hringdi síðan í mig, á Selfoss og sagði mér hvenær von væri á innbúinu og með hvaða báti. Hann var svo sorgmæddur að horfa á eftir dótinu okkar í burtu í einum haug, að hann óskaði að báturinn færi niður með öllu saman á leiðinni í land.  Ég var mætt á bryggjuna og var tilbúin að taka á móti, þegar uppskipunin hófst.  Ég var heppin að mín búslóð var fyrst upp úr bátnum, í bland við aðrar. Það voru sendibílar á bryggjunni sem hlaðið var í, jafnóðum. Ég fékk einn þeirra.  Margir aðstoðamenn voru að taka á móti úr bátnum og setja niður á bryggjuna og aðrir að hlaða bílana.   Ég sagði oftar en tölu verður á komið. " Fyrirgefðu, ég á þetta" Tvennt er mér minnisstæðast. Þegar nýja  500 l frystikistan okkar,  kom upp úr bátnum. Hún var opin. Ofan í henni var sjónvarpið og lítil stauvél.  Einnig þegar kassi  með fjölskylduljósmyndum lenti á hliðinni, á bryggjunni og bunkinn fór að fjúka um.  Ég skreið um bryggjuna og safnaði þeim saman aftur í kassann. Það var í eina skiptið í  öllum þessum látum, sem ég fór að gráta.

Þegar innbúið okkar var farið frá Eyjum, var Óli fenginn til að bera út úr fleiri húsum. Það var ekki nógur mannskapur í Eyjunni til að hafa við. Þeir gáfu sér hvorki matar- né svefntíma. Þeir tóku upp eina og eina ávaxtadós, úr búri þess húss sem þeir voru að tæma.

Svo komu skilaboð frá Ingólfi, í Netagerð Ingólfs um að bjarga þyrfti nót um borð í skip. Netin voru á efri hæð hússins. Þeir voru sex í nærri tvo sólarhringa með smá hléum að draga nótina og fleiri net sem á eftir fylgdu út um þar til gert hurðarop, með handafli og láta síga niður á bílpalla sem lagt var fyrir neðan. Þegar það var búið var sezt niður. Óli kveikti sér í sigarettu sem einhver bauð honum. Hann reykti pípu á þessum tíma. Þeir sofnuðu allir samstundis þar sem þeir sátu á kössunum. Óli hrökk upp, þegar reykur fór að hita upp á honum andlitið. Hann hafði misst logandi rettuna í úlpuna og það kviknaði í henni.

oeo26_edited.jpg

Hrafnhildur Guðmundsdóttir mynd tekin í Álsey 1972 rétt fyrir verslunnarmannahelgi er þau skruppu til eyja í húsnæðisleit Fengu þau húsnæði á Brekastíg 15 hjá Palla Árna , fluttu þangað í Nóvember sama ár

Nýtt heimili 
 

Nú þótti sýnt að nóg væri, að sinni. Þeir voru sendir í skip og sagt að fara heim í hvíld. Þeir fóru allir. Þegar í land var komið fór Óli að leita að bílnum sínum. Engir lyklar voru í bílunum. þeir höfðu verið teknir í geymslu, til öryggis fyrir eigendurna. Við áttum gamlan bíl. Óli gat tengt á milli og komst á honum heim. Ég spurði hvort hann hefði getað haldið sér vakandi á leiðinni. Nei, hann mundi ekkert eftir sér á leiðinni, Jú hann hafði einu sinni keyrt útaf en komist klakklaust upp á veg aftur. Nú var þrautin þyngri að geta sofnað. Sem betur fer hafðist það. Svo þegar hann vaknaði. hafði  hægra augað beinst alveg niður í augnkrók. Síðan hefur hann notað gleraugu.

Þegar inn var komið,  varð ég bara tiltölulega sátt. Sænskt skipulag húsa er bara skrambi gott. Mjög stórt eldhús og þvottahús. fjögur svefnherbergi. Baðherbergi með baðkari á svefnherbergisgangi en wc með vaski og sturtu inn af forstofu. Stór stofa. Svo,  það skemmtilega. Stórt geymsluherbergi með fataslám og hillum, i enda hússins inni á svefnherbergisgangi.  Auðsjáanlega skipulagt til að skipta út vetrar- og sumarfatnaði.

 Í þorlákshöfn á þessum tíma var sandurinn ógróinn. Þegar þurrt var og vindur, smaug sandurinn alls staðar inn í þetta fljótuppsetta einingahús.  Á morgnana, eftir þannig veður, var sporrakt um allt húsið. Þarna  bjuggum við leigulaust. fram til 1. desember.  Greiddum aðeins fyrir rafmagn til heimilisnota og kyndingar.

Meitillinn
Mynd fengin af Facebook síðunni  " Ég vann í Meitlinum"

Óvægin Samkeppni
 

Þegar Óli var búin að safna kröftum eftir erfiðið í Eyjum var kominn það mikill mannskapur út að hann fór að huga að vinnunni sinni. Næstu vikurnar voru eigendur rafmagnsverkstæðisins Neista í Vestmannaeyjum að setja sig niður, bæði í Þorlákshöfn og Grindavík. Óli valdi að vinna í Þorlákshöfn, því það var nær Selfossi, þar sem fjölskyldan var. Boð kom frá Landsvirkjun til Viðlagasjóðs að lána þrjú móelhús og tvö venjuleg. Voru þau tekin niður, uppi við Búrfellsvirkjun og sett upp í Þorlákshöfn. Verkstæðið hafði aðgang að umsókn og úthlutaði okkur öðru húsinu. Við fluttum því í Þorlákshöfn þremur vikum eftir gos. Mig hryllti við að þurfa að flytja þangað, niðureftir. Mér fannst staðurinn vera á mörkum hins byggilega heims. Staðurinn, þar sem ég kom fárveik af sjóveiki. Staðurinn, þar sem ég var á hlaupum eftir innbúinu. Ég hafði ekkert val. Óli flutti búslóðina. Árni mágur minn kom með vörubílinn sinn, eins og svo oft í gegnum tíðina. Ég var með börnin á meðan. Svo var setzt upp í bíl. Ég lokaði augunum og opnaði þau ekki fyrr en bíllinn stanzaði fyrir utan húsið.

Þegar fór að hausta, flutti Neisti starfsemi sína aftur til Eyja. Óli stofnaði verkstæði til að halda áfram bátaþjónustu. Þá var Kaupfélag Árnesinga með tvo rafvirkja starfandi hjá Meitlinum. Þegar meistari Óla frá KÁ, Magnús Hákonarson, sá að hann ætlaði ekki með fyrirtækinu aftur út til Eyja sendi hann fjóra rafvirkja til viðbótar frá Selfossi meðan þeir voru að kæfa hann. Það tók fjóra mánuði. Eftir það urðu þeir aftur tveir. 1. desember fluttum við úr Búrfellshúsinu áðurnefnda í nýtt sænskt Viðlagasjóðshús. Þá var liðið eitt ár, frá því að við fluttum inn, á Brekastíg 15, í Eyjum. Nú var það glænýtt hús. Teppi á stofugólfi. Heilmikill munur frá því úr gólfkuldanum, um haustið. Okkur fæddist drengur, 24. desember í nýja húsinu. Herdís ljósmóðir úr Hveragerði kom og tók á móti barninu. Svo þegar hún var búin að ganga frá okkur kom Óli með rauðvín inn og þau skáluðu fyrir nýja barninu. Þá sagði Herdís." Hvað haldið þið að læknirinn á sjúkrahúsinu myndi segja ef hann sæi til okkar" Svo brosti hún sporsk niður í bringuna á sér. Þetta var hennar síðasta ljósmóðurverk

 Jæja kæru vinir. Þetta var nú sagan mín í eitt ár frá nóvember 1972 til 24. desember 1973. Takk fyrir að taka þátt og hrósa mér. Eftir þessi skrif skil ég margt í fari mínu sem kom upp í hugann um leið og ég rifjaði þetta ár upp. Líklega eins konar áfallahjálp

Hrafnhildur Guðmundsdóttir

bottom of page